Á hverju ári gefur Landlæknisembættið út lýðheilsuvísa eftir heilbrigðisumdæmum. Lýðheilsuvísarnir gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar og geta stutt við sveitarfélög og heilbrigðisþjónustu við að vinna að bættri heilsu og líðan íbúa. Vísarnir eru valdir með það í huga að þeir feli í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna.
Á vefsíðu Gaums eru birtir árlega þeir vísar sem Norðurland víkur frá meðaltali landsins. Á árinu 2023 véku íbúar á Norðurlandi frá landsmeðaltali á eftirtöldum vísum:
Færri búa í leiguhúsnæði
Færri fullorðnir hafa orðið fyrir mismunun
Hamingja fullorðinna er minni
Fleiri fullorðnir meta heilsu sína sæmilega/lélega
Þunglyndislyfjanotkun er meiri
Líkamsþyngdarstuðull >30 hjá fleiri fullorðnum
Inflúensubólusetningar hjá 60 ára og eldri eru fleiri
Fleiri fullorðnir nota blóðsykurlækkandi lyf
Fleiri nýta sér skimun fyrir legháls- og brjóstakrabbameini.
Einn vísir vekur sérstaka athygli meðal annars vegna þess að frá því Landlæknisembættið hóf útgáfu lýðheilsuvísanna hefur hann alltaf verið meðal þeirra vísa sem Norðurland víkur fá landsmeðaltali, en það er að sýklalyfjaávísanir barna eru undir landsmeðaltali, samfellt á tímabilinu 2016-2024.